HEIMSKAUTSLAMB

BEINT FRÁ BÝLI

Um okkur

Höfði

Raufarhöfn

Bændurnir á Höfða við Raufarhöfn eru Steinþór Friðriksson og Nanna Steina Höskuldsdóttir. Tvö börn eru á bænum Auðunn Elí og Höskuldur Breki. Nanna er matráður og hefur því talsverða þekkingu á matreiðslu og vinnslu kjötafurða.  

Höfði er austasti bær á Melrakkasléttu. Jörðina keyptum við af foreldrum Nönnu og frænda árið 2014 og höfum við smátt og smátt verið að endurbæta fasteignir og fleira. Jörðin er hluti gömlu Hólsjarðarinnar, en búskapur hefur verið á jörðinni frá manna minnum.

Við búum fyrst og fremst með sauðfé en á bænum eru einnig endur, hænur, hundar og við og við svín. Á veturna eru um 400 ær hjá okkur á fóðrum. Féð okkar fer á heiði í byrjun júní og er smalað heim um miðjan september. Smalalandið er víðfermt, féð kemst óhyndrað um alla Melrakkasléttuna. Á öllu þessu landsvæði eru aðeins 4 bú og því nóg æti.

Beint frá býli

Við erum í samtökunum BEINT FRÁ BÝLI sem er félag heimavinnsluaðila og bænda sem stunda eða hyggjast stunda sölu afurða beint frá býli bóndans á Íslandi.
Tilgangur félagsins er að hvetja til heimavinnslu og sölu beint frá bændum. Og vinna að hagsmunum þeirra bænda sem stunda hverskonar framleiðslu og sölu á heimaunnum afurðum.
Meginmarkmið félagsins er að tryggja neytendum gæðavörur þar sem öryggi og rekjanleiki vöru er í fyrirrúmi. Félagið hvetur einnig til varðveislu hefðbundinna framleiðsluaðferða og kynningar á svæðisbundnum hráefnum og hefðum í matargerð.

 

Með því að kaupa lambakjöt beint frá býli fækkum við milliliðunum. Einnig veist þú nákvæmlega hvaðan kjötið kemur sem þú setur á þinn disk. Hafðu í huga hver það er sem framleiðir kjötið þitt.

Inná síðunni lambakjot.is má finna ýmsar upplýsingar um eldun og fleira er tengist lambakjöti og margar mjög fróðlegar. 

LÍFIÐ Á BÆNUM